21.3.06

Meira um Egilsstaði


Að þessu sinni tek ég fyrir nýtt miðbæjarskipulag á Egilsstöðum sem er í flesta staði snjallt og sniðugt eins og að láta aðalgötuna í gegnum nýjan miðbæ vera rauða. En eitt fer verulega í taugarnar á mér við þetta annars ágæta miðbæjarskipulag og það er einmitt að þessir frjóu hugir sem skipulögðu fyrrnefnt skipulag skildi ekki detta annað nafn í hug á rauðu götunni en Strikið. Hvað er að? Strikið er í Kaupmannahöfn og eitt þekktasta kennileiti þeirrar borgar.
Ef ég ímynda mér að ég væri fluga á vegg á fundi skipulagsnefndar nýs miðbæjarskipulags gæti ég trúað að samtal þeirra hafi hljómað eitthvað á þessa leið:

Hönnuður nr. 1: "Jæja nú erum við búin að skipuleggja nýjan og fallegan miðbæ Egilsstaða"
Hönnuður nr. 2: "Já þetta var erfitt en nú er það senn á enda. Það eina sem vantar er nafn á þessa fallegu rauðu götu. Er einhver með hugmynd?"
Hönnuður nr. 3: "öhhh Oxford Street???"
Hönnuður nr. 1: "Hmm ekki slæm hugmynd. Einhverjar fleiri hugmyndir?"
Hönnuður nr. 2: "öhhh Broadway???"
Hönnuður nr. 1: "Já það er snjallt og svoldið international. En þurfum við ekki að skýra hana eitthvað nær okkar menningu? Ég mæli með að við nefnum þessa götu Strikið"
Hönnuður nr. 2 og Hönnuður nr. 3 í kór: "Húrra Frábær hugmynd. Allir vita að eitt sinn vorum við undir Danaveldi og því ættum við að þakka þeim að hafa haldið í okkur íslendingum lífinu í árhundruð, með því að skýra rauðu götuna Strikið. Húrra, Húrra, Húrra fyrir þér Hr. Hönnuður nr. 1"

Já þannig fékk þessi gata nafnið Strikið ímynda ég mér.
Eina sem ég velti fyrir mér er hvar á Ráðhústorg að vera?