27.3.06

Jónína dettur í tjörnina


Hitabylgja reið yfir Akureyri ekki alls fyrir löngu og mældist 30 stiga hiti þegar heitast var. Bar hitann svo snögglega að að ísinn á tjörn bæjarins bráðnaði samstundis. Jónína Baldursdóttir snyrtifræðingur og ísfiskveiðimaður var við tómstundaiðju sína að veiða gegnum vök á Akureyrartjörn þegar hitabylgjan skall snögglega á. Jónína sem er vanur ísfiskveiðimaður og þekkir vel til veðurfars á staðnum hafði sem betur fer vaðið fyrir neðan sig þegar hún fór út á ísinn því hún var í björgunarvesti.

"Það snögghitnaði bara og fljótlega tók ísinn að bresta undan fótum mínum, og ég féll ofan í vatnið."

Segir Jónína og glottir við tönn.

"Það kom þó ekki að mikilli sök því hitinn var svo mikill að tjörnin varð samstundis svo þægilega volg út af hitanum. Baldur maðurinn minn varð svolítið skelkaður en ég vildi bara ekki upp úr það var svo þægilegt baðið."

Sagði Jónína að lokum og hlær hástöfum með skærri röddu og kveður.

Af veðrinu á Akureyri er svo það að frétta að daginn eftir snöggkólnaði fór að snjóa og hefur snjóað síðan og eflaust má sjá Jónínu stunda áhugamál sitt á ísnum þar í dag.