24.12.06

Gleðileg Jól


Óska vinum og lesendum gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.
Farið varlega í brennivínið yfir hátíðarnar svo þið endið ekki eins og þessi Jóla-Sveinn.
Vegna aðstæðna verða engin jólakort send frá mér í ár og vona ég að mér verði fyrirgefið það.

Gleðileg Jól
Svenni

12.12.06

Nætursnarl


Fyrir mér er nætursnarl jafn mikilvægt og kynlíf fyrir rottum og koma tímabil þar sem ég vakna á hverri nóttu til að fá mér bita.
Það eru tvö efni sem eru algjör forsenda fyrir ánægjulegu nætursnarli, annað er súkkulaði hitt er mjólk. Þess vegna reyni ég alltaf að eiga súkkulaðikex í skápnum og mjólk í ísskápnum því ekkert er verra en að geta ekki svalað fíkn sinni klukkan 4 um nótt. Ef ekkert er til geng ég um gólf í svitakófi og velti fyrir mér hvað ég eigi að gera og oftar en ekki verður Haust-kex með óhóflegu smjörmagni fyrir valinu ásamt hálfum til einum lítra af mjólk.
Hins vegar þegar súkkulaðikex af einhverri gerð er til og nóg af mjólk þá líður mér eins og barni á jólunum að taka upp óskagjöfina sína. Svo hálfum kexpakka og líter af mjólk síðar leggst ég til hvílu á ný og sofna eins og nýskotin gæs.
Ókostirnir við þetta næturbrölt eru tveir. Annars vegar aukakíló en síðasta mánuðinn hef ég ekki vaknað til þessarar iðju og misst um það bil 5 kg. Hins vegar hefur súkkulaðið einhver svæfandi áhrif og afskaplega erfitt er að koma sér á fætur á morgnana eftir góða nætursnarlsnótt meira að segja mun erfiðara en aðra morgna.
En þegar öllu er á botninn hvolft þá er næturbröltið þess virði því unaðstilfinningin sem fylgir því að þamba síðasta mjólkurglasið á eftir síðustu kexkökunni slær engu við.